Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gegndi um tíma á síðasta ári einnig embætti dómsmálaráðherra. Það gerði hann að ósk Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra. Á þeim stutta tíma sem hann gegndi þessu embætti lagði Sigmundur Davíð meðal annars fram frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum og lögum um meðferð sakamála. Þetta er eitt af ríflega 250 málum sem bíða afgreiðslu á Alþingi.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnun sérstaks embættis héraðssaksóknara verði frestað til 1. janúar 2016. Upphaflega var gert ráð fyrir að embættið tæki til starfa árið 2009 en vegna aðhalds í ríkisútgjöldum í kjölfar hruns bankakerfisins haustið 2008 hefur stofnun embættisins verið frestað í fjórgang. Verði frumvarpið að lögum flyst ákvörðun um málshöfðun að mestu frá embætti ríkissaksóknara til lögreglustjóra og héraðssaksóknara. Einnig flytjast verkefni embættis sérstaks saksóknara til héraðssaksóknara. Ríkissaksóknara er falið að hafa íhlutun og eftirlit með rannsókn og saksókn lögreglustjóra. Embætti héraðssaksóknara verður einnig fengið það hlutverk að annast lögreglurannsóknir í skatta- og efnahagsbrotamálum og nokkrum fleiri brotaflokkum. Frumvarpið bíður 2. umræðu á þingi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .