Enex Kína ehf. og Shaanxi Geothermal Energy Development Corporation (CGCO) undirrituðu í dag samning um stofnun félagsins Shaanxi Green Energy Geothermal Development Co. í borginni Xian Yang í Shaanxi héraði í Kína. Hið nýja félag er að 49% hlut í eigu Enex Kína.

Þetta kemur fram í frétt á vef Orkuveitu Reykjavíkur. Um er að ræða framhald af samkomulagi sem gert var milli aðila í lok júní sl. Fyrsta verkefni hins nýja félags er uppbygging og rekstur jarðvarmaveitu sem í fyrsta áfanga mun þjónusta þrjá framhaldsskóla í Xian Yang borg. Heildarfjárfesting fyrsta áfanga er um 2,4 milljón evra.

Í fréttinni kemur fram að Xian Yang borg býr yfir miklum jarðvarma sem er að miklu leyti ónýttur en borgin fékk formlega titilinn ?Jarðhitaborg Kína" fyrr á árinu. Borgaryfirvöld hafa sýnt verkefninu mikinn stuðning sem er í samræmi við stefnu kínverskra stjórnvalda að 15% allrar orku Kína komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2020.

Enex Kína ehf er í eigu Enex, Glitnis og Orkuveitu Reykjavíkur.