Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og Eiður Arnarsson, meðlimir hljómsveitarinnar Todmobile, hafa stofnað einkahlutafélagið Todmobile ehf. utan um rekstur sveitarinnar. „Við hefðum átt að stofna þetta félag fyrir löngu síðan,“ segir Þorvaldur.

„Þetta félag er í rauninni bara til að halda utan um það sem ég og Eiður Arnarsson erum að gera í tónleika- og viðburðageiranum,“ bætir hann við. Þorvaldur segir margt á döfinni hjá þeim félögum. Í vetur muni þeir halda tónleika í Eldborgarsal Hörpunnar með Steve Hackett, gítarleikara stórhljómsveitarinnar Genesis. Þar munu þeir frumflytja efni sem þeir hyggjast semja í sameiningu við Steve. Fleiri verkefni séu í pípunum sem ekki sé hægt að svipta hulunni af að svo stöddu.