Lagaheimild stendur til þess hér á landi að kvikmyndagerðarmönnum sé unnt að fá endurgreidd 20% af framleiðslukostnaði vegna framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis á Íslandi. Jafnt innlendir sem erlendir aðilar geta sótt um slíka endurgreiðslu. Hins vegar getur kvikmyndagerðarmönnum reynst heldur flókið að sækja um endurgreiðslu og jafnvel kostnaðarsamt. Þannig þarf að uppfylla ýmis skilyrði til þess að geta sótt um endurgreiðsluna, til dæmis að stofnað sé sérstakt félag um framleiðsluna á Íslandi.

Þetta gerir það að verkum að kvikmyndargerðarmenn á Íslandi hafa margir hverjir mörg einkahlutafélög á sínum snærum til þess að geta sótt endurgreiðslur á grundvelli laganna. Hugi Halldórsson, eigandi Stórveldisins, stofnaði í gær Smáveldið til þess að sækja um eina slíka. Segir hann hvimleitt að þurfa að standa í því að stofna öll þessi félög. „Eftir tíu ár á ég örugglega svona 48 félög. Svo kostar þetta peninga, þessu fylgir stofnkostnaður og kostnaður við bókhald. Ég þarf að stofna svona tvær til þrjár kennitölur á hverju ári.“ Hugi segir að Smáveldið sé sjötta félagið sem hann stofnar í þessum tilgangi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .