Evrópusambandið hyggst nú setja á laggirnar fimm nýja sprotasjóði í samstarfi við einkaaðila til þess að fjárfesta í tæknifyrirtækjum og koma í veg fyrir að þau flytjist til Bandaríkjanna að því er kemur fram á vef The Wall Street Journal. Stefnt er á að sjóðirnir verði um 2 milljarðir evra að stærð en þar af mun ESB leggja til um 400 milljónir evra og að þeir fjárfesti í tæknifyrirtækjum og sprotum í Evrópu.

Forsaga málsins er sú að í heimi rannsókna og þróunar fyrirtækja hefur Evrópa jafnan skarað fram úr í rannsóknahlutanum en verið eftirbátur þegar kemur að þróun. Þrátt fyrir bágt efnahagsástand í mörg ár hafa vísindarannsóknir í Evrópu verið einna fremst í heiminum og allt frá Eistlandi til Portúgal hefur verið að glæðast líf í tæknigeirann. Það virðist þó ekki hafa skilað sér í störfum, hagnaði og skattfé.

Í mörgum tilvikum hafa bandarísk og asísk fyrirtæki keypt bestu hugmyndirnar og bestu sprotana og þannig náð að innleysa ágóðann. Eitt dæmi er Skype, sem var stofnað í Eistlandi en síðar keypt af eBay og er nú hluti af Microsoft. Annað er Bluetooth tæknin sem var fundin upp af Dana sem starfaði hjá sænska fyrirtækinu Ericsson. Markmiðið með sjóðunum er að koma í veg fyrir að ungir og efnilegir sprotar yfirgefi Evrópu.

Áður fyrr voru tæknifyrirtæki á borð við Ericsson, Nokia og Alcatel vinsæl meðal fjárfesta en þau riðuðu til falls og ollu fjárfestum töluverðum töpum en ekki hefur tekist að fylla upp í skarðið nægilega vel.

Aðgengi sprota að fjármagni er þar talið skipta höfuðmáli en í Bandaríkjunum eru margir framtaks- og sprotasjóðir með meira en 1 milljarð dala í stýringu. Bandaríkjamenn og evrópubúar stofna fyrirtæki í mjög svipuðum mæli en Í Evrópu hefur á undanförnum þremur árum aðeins náðst að safna um fimmtungi þess sem safnast í sprotasjóði í Bandaríkjunum.