Samtök iðnaðarins hafa stofnað Framleiðsluráð SI sem er samstarfsvettvangur framleiðslu- og matvælagreina innan samtakanna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum iðnaðarins.

„Framleiðsluráði SI er ætlað að auka sýnileika framleiðslu á Íslandi, stuðla að bættu starfsumhverfi og efla umræðu um íslenska framleiðslu. Starfsemi framleiðslufyrirtækja á Íslandi er umfangsmikil. Framleiðslufyrirtækin velta 685 milljörðum króna sem er um 18% af heildarveltu allra íslenskra fyrirtækja árið 2016 og hjá þeim starfa um 15.500 starfsmenn. Framlag iðnaðarframleiðslu til verðmætasköpunar er um 10% en fluttar voru út iðnaðarvörur fyrir 331 milljarð króna á árinu sem vegur þungt í heildarvöruútflutningi Íslands eða um 53%. Íslensk framleiðslufyrirtæki eiga því stóran þátt í fjölbreyttu atvinnulífi hér á landi. Dæmi um framleiðslu sem aðildarfyrirtæki SI fást við eru matvæli, fóður, umbúðir, húsgögn, innréttingar, byggingavörur, tæki og vélar, prentverk og vinnsla úr málmum og endurvinnsluefnum,“ segir í tilkynningunni.

Gestur Pálsson formaður Framleiðsluráðs SI

Í ráðinu sitja níu stjórnendur frá mismunandi fyrirtækjum innan framleiðslugreinanna. Gestur Pétursson, forstjóri Elkem, er nýr formaður Framleiðsluráðs Elkem. Hann segir að það sé ánægjulegt að það sé nú kominn sameiginlegur vettvangur til að vinna að hagsmunum íslenskra framleiðslufyrirtækja.

„Innan okkar raða eru um 230 fyrirtæki í mjög fjölbreyttri framleiðslu. Með því að leggja saman krafta okkar getum við aukið sýnileika framleiðslugreinarinnar og stuðlað að enn fjölbreyttara atvinnulífi. Við viljum gera framleiðslugreinarnar að eftirsóttum starfsvettvangi og laða til okkar starfsfólk með rétta þekkingu og færni. Fyrirtækin geta lært hvert af öðru því framleiðslufyrirtæki standa öll frammi fyrir svipuðum áskorunum í nýsköpun, framleiðni, gæðastjórnun, umhverfismálum, birgðastjórnun og framleiðslustýringu. Það er mikilvægt að við eflum samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna og að þau vinni saman að því að bæta starfsskilyrði framleiðsluiðnaðar á Íslandi. Við viljum vinna markvisst að því að íslenskar framleiðsluvörur séu eftirsóttar vegna gæða, frumleika og jákvæðs uppruna,“ er haft eftir Gesti í tilkynningunni.

Í Framleiðsluráði SI sitja: Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður framleiðslu- og matvælasviðs SI, Gunnar Sverrisson, forstjóri Odda, Andri Daði Aðalsteinsson, markaðsstjóri Límtré Vírnet, Gestur Pétursson, forstjóri Elkem Ísland og formaður Framleiðsluráðs SI, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri ÍSAM og varaformaður Framleiðsluráðs SI, Þórður Theodórsson, framleiðslustjóri Marel, Margrét Ormslev, fjármálastjóri CRI, Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, Stefán Magnússon, markaðsstjóri Coca-Cola European Partners Ísland, og Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI og Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóra Íslenska kalkþörungafélagsins.