Glugga- og hurðaverslunin Skanva hefur stofnað netklúbb með ókeypis aðild sem veitir allt að 35% afslátt sé verslað á netinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Verslunin hefur verið sektuð í tvígang um alls 1.250 þúsund krónur af Neytendastofu síðustu ár fyrir að auglýsa 35% netafslátt, án þess að hafa getað sýnt fram á – að mati stofnunarinnar – að um raunverulegt verð án afsláttarins væri að ræða. Seinni sektinni og ákvörðuninni sem lá henni til grundvallar áfrýjaði Skanva til áfrýjunarnefndar neytendamála síðasta sumar, en hafði ekki erindi sem erfiði .

Ósammála niðurstöðunni en hyggjast ekki áfrýja
Félgið segist í tilkynningu vegna málsins og nýlegs fréttaflutnings af því ekki vera sammála niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar. Sér til stuðnings vísa forsvarsmenn þess meðal annars til þess að sami háttur hafi lengi verið hafður í verslunum þess á öðrum Norðurlöndum.

Þrátt fyrir að sama Evrópulöggjöf og Neytendastofa vísi til séu í gildi þar, hafi aldrei verið höfð afskipti af framsetningu afsláttarkjaranna annarsstaðar en á Íslandi. Forsvarsmenn Skanva telja þetta skýrast af annarri túlkun laganna hér á landi en í samanburðarlöndunum.

Niðurstöðunni verði hinsvegar ekki áfrýjað, heldur verði verðstefnunni breytt til samræmis við það verklag sem tíðkist hjá öðrum fyrirtækjum. Er þar væntanlega vísað til hins nýja netklúbbs sem nú þarf að skrá sig í áður en netafslátturinn er veittur, en hugmyndin er sögð fengin frá svipuðum aðildarklúbbum, meðal annars í byggingariðnaðinum og bókabúðum. Auk afsláttarins verða klúbbfélögum veitt sérstök tilboð.