Sverrir Viðar Hauksson hefur ásamt hjónunum Ernu Gísladóttur og Jóni Þór Gunnarssyni, eigendum bílaumboðsins BL, stofnað leigufyrirtækið Flex.

Egg ehf., móðurfélag BL, verður aðaleigandi félagsins sem mun fyrst og fremst leigja út BL bíla þó að félagið verði rekið sem sjálfstæð eining.

Úr eignarhaldi í afnot

Sverrir Viðar, framkvæmdastjóri félagsins, segir að lögð verði áhersla á langtímaleigu til fyrirtækja og einstaklinga á innanlandsmarkaði og töluverðan sveigjanleika eins og nafn félagsins gefur til kynna.

„Nafnið Flex kemur til af þessari framtíðarsýn um sveigjanlegri samgöngur sem allur heimurinn er að kalla eftir, að færast úr eignarhaldi í afnot. Þú þarft ekki að eiga hlutina til að njóta gæðanna af þeim,“ segir Sverrir.

Aukinn sveigjanleiki sé í takt við þróun sem sé að eiga sér stað á alþjóðavísu. „Við viljum taka þátt í þessari þróun með því að finna út hverjar þínar þarfir eru. Hvað ert þú að gera og hvernig látum við það smella saman þannig að það falli að því sem þú ert tilbúinn til að borga? Vilji viðskiptavinir skíðaboga á veturna á bílinn en hjólafestingu á sumrin, aðgang að kerru eða sendibíl nokkra daga á ári, eða skipta tímabundið um bíl getur það verið hluti af leigusamningum.

„Við horfum á okkur sem samstarfsaðila með viðskiptavinum í að finna þann samgöngumáta sem hentar hverjum og einum,“ segir Sverrir.

Sífellt fleiri sem velji að leigja

Viðhorfsbreyting sé að verða, sér í lagi hjá yngri kynslóðum til bíla, sem sé í reynd einungis ein möguleg leið af mörgum til að komast á milli staða.

„Gamla módelið þar sem fólk á bíl í nokkur ár og skiptir honum upp í nýjan eins bíl og borgar á milli er að miklu leyti á undanhaldi. Bílaumboðin finna að það eru alltaf fleiri og fleiri sem segja: „Getur þú ekki bara séð um þetta fyrir mig. Ég nenni ekki að hafa dekk í bílskúrnum hjá mér,“ nefnir hann sem dæmi.

Oft vanmeti fólk hver raunkostnaðurinn við að eiga bíl sé þar sem reikningarnir tínast inn yfir árið og bætist við kostnaðinn við að hafa fjármagn bundið í bílnum sjálfum sem lækkar stöðugt í verði. „Stundum vill fólk heldur ekki vita hvað það kostar raunverulega að eiga bíl,“ segir Sverrir og hlær.

„Með því að vera með bíl á leigu stendur þú frammi fyrir heilbrigðari ákvörðun að mínu mati. Kostnaðurinn verður miklu gegnsærri þegar þú sérð hver raunkostnaðurinn er mánaðarlega og getur þá betur svarað: Hvað er ég tilbúinn til að setja af heimilisbókhaldinu mínu í bíl?“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .