Stofnendur QuizUp leiksins, þau Þorsteinn Friðriksson, Valgerður Halldórsdóttir og Sveinn Þorri Davíðsson, hafa komið á fót nýju leikjafyrirtæki sem heitir Rocky Road. Fyrirtækið hefur lokið 330 milljóna króna fjármögnun frá íslenskum, finnskum og bandarískum fjárfestingarsjóðum. Fjármögnunarlotan var leidd af vísisjóðnum Crowberry Capital og tölvuleikjafjárfestingasjóðnum Sisu Game Ventures. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Rocky Road, sem stofnað var fyrr í mánuðinum, vinnur nú að gerð nýs fjölspilunarleiks (MMO) fyrir farsíma með áherslu á einfaldleika og skemmtanagildi fyrir stærri markhóp á heimsvísu.

„Ég hef alltaf verið aðdáandi af stórum leikjaheimum þar sem spilendur geta átt samskipti við hvorn annan, kynnst nýju fólki og myndað langtímasambönd,“ er haft eftir Þorsteini Friðrikssyni , forstjóra og meðstofnanda Rocky Road.

„Vandarmálið hjá stórum meirihluta af núverandi sandkassaleikjum (e. open world games) er að þeir eru ótrúlega flóknir og með bratta lærdómskúrfu sem kemur í veg fyrir að meirihluti spilenda sökkvi sér í leikinn. Við erum að byggja Rocky Road á þeirri forsendu að venjulegt fólk sé spennt fyrir að spila og blanda geði í stórum leikjaheimi og við erum staðráðin í að útvega þá upplifun á aðgengilegan máta.“

Leikjafyrirtækið hyggst nýta fjármögnunina til að tvöfalda starfsmannateymið á Íslandi og setja upp starfsstöð í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu. Lögð verður áhersla að fá inn hugbúnaðarverkfræðinga og leikjahönnuði.

Þorsteinn, Valgerður og Sveinn Þorri eru meðal fyrri stofnenda og lykilstarfsmanna Plain Vanilla sem gaf út QuizUp snjallsímaleikinin sem er í dag með um 100 milljónir notenda. Plain Vanilla var selt til Glu Mobile árið 2016. Þorsteinn stofnaði í kjölfarið Teatime Games ásamt þremur öðrum meðstofnendum og starfsmönnum Plain Vanilla. Teatime, sem gaf út leikinn Trivia Royal, varð gjaldþrota snemma á síðasta ári.