Þorsteinn B. Friðriksson, einn stofnenda Teatime Games, og Guðjón Már Guðjónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Oz, hyggjast stofna lítinn nýsköpunarklasa. Þeir eru að skoða húsnæði sem gæti hentað undir slíka starfsemi og auglýstu á Instagram reikningum sínum að þá vantaði pláss fyrir reynslumikið fólk, ef réttir aðilar finnast.

Viðskiptablaðið hafði samband við Þorstein til að forvitnast um framtakið. „Við Guðjón erum aðeins að þreifa fyrir okkur með þetta. Þetta er á algjöru frumstigi, við erum að skoða fleira en eitt húsnæði sem gæti hentað hópnum. Í ljósi þess að ég er að loka Teatime þá veltir maður því óhjákvæmilega fyrir sér hvað maður ætlar að gera í framhaldinu. Við höfum báðir prófað ýmislegt í þessum dúr í gegnum tíðina og okkur langar að ná saman fólki sem hefur reynslu og getur miðlað af henni til annarra og skapað skemmtilega stemningu í litla nýsköpunargeiranum," segir Þorsteinn.

Sköpunarorka í nýsköpunarklösum

Viðbrögð við auglýsingu þeirra eftir áhugasömu fólki hafa ekki látið á sér standa. „Við settum þetta bara inn á Instagram story hjá okkur og höfum fengið mikil viðbrögð, þannig að það er greinilegt að það er fullt af fólki sem hefur áhuga á því komast í svona skapandi umhverfi," segir hann og bætir við að nauðsynlegt sé að einstaklingarnir passi inn í dýnamíkina sem þeir vilja skapa.

„Ég hef oft, bæði erlendis og heima, komið í svona klasa þar sem það myndast mikil sköpunarorka og það græða allir á því. Þessa dagana eru margir að stofna fyrirtæki og margir að vinna heima, jafnvel fyrir erlend fyrirtæki, og það er mjög leiðinlegt að vinna heima hjá sér, og við erum að skapa skemmtilegra umhverfi fyrir fólk í þessum sporum. Ef það er eitthvað eitt sem ég hef lært á mínum ferli, þá er það að ef þú safnar saman kláru fólki þá kemur eitthvað sniðugt út úr því."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .