Jón Viðar Arnþórsson, fyrrverandi formaður Mjölnis hyggst stofna nýja líkamsræktarstöð sem mun bera nafnið TÝR ásamt félögum sínum úr lögreglunni. Frá þessu greinir Jón Viðar í Facebook-færslu .

Hann segir að hin nýja líkamsræktarstöð verði frábrugðin Mjölni og bjóða upp á öðruvísi þjónustu þar sem ISR Matrix kerfið verði í aðalhlutverki. ISR er angi út úr lifandi bardagaíþróttum og hefur verið í þróun í yfir 20 ár hjá sérsveitarmönnum, hermönnum, BJJ svartbeltingum og hnefaleikamönnum að sögn Jón Viðars.

Þá segir hann einnig að boðið verði upp á þjónustu fyrir starfsmenn fyrirtækja og stofnana sem vilja tryggja sér meira starfsöryggi. Einnig verði boðið upp á sjálfsvarnarnámskeið fyrir konur og ISR öryggistök og neyðarvörn fyrir almenning. Fjöldi viðskiptavina verði takmarkaður til þess að hægt verði að bjóða upp á fagmannlega og persónulega þjónustu.

Í líkamsræktarstöðinni verða nýjungar á borð við gervi íbúð sem notuð verður í æfingar auk bardagaíþróttasals og lyftingarsvæðis. Þá verður sérstaklega útbúnum bíl fyrir æfingar og átök lagt beint fyrir utan stöðina.