Stofnaður hefur verið nýr námslánasjóður sem ber heitið Framtíðin og er honum ætlað að veita háskólanemum bæði framfærslu- og skólagjaldalán til viðbótar við LÍN. Þetta kemur fram í Markaðnum á Fréttablaðinu.

Hlíf Sturludóttir er stjórnarformaður sjóðsins og segir hún í samtali við Markaðinn að hann geti verið góð leið til fjármögnunar fyrir fólk sem annars eigi í erfiðleikum með að komast í nám, til dæmis þegar tekjuviðmið LÍN eða hámörk á skólagjaldalánum skerða möguleika þeirra.

„Framtíðin er alls ekki í samkeppni við LÍN. Við erum miklu frekar að auka þá möguleika sem í boði eru fyrir námsmenn og þar með að mæta þeim óskum sem við höfum heyrt frá háskólanemum á síðustu árum um skólagjaldalán vegna kostnaðarsams náms erlendis, aukna grunnframfærslu, möguleika á námi með vinnu og því að fara í háskólanám eftir nokkur ár á vinnumarkaði,“ segir Hlíf.

Það eru skuldabréfasjóðir í stýringu hjá GAMMA sem fjármagna Framtíðina í upphafi en síðar er stefnt að fjármögnun í gegnum skuldabréfaútgáfur í kauphöll.