Verið er að leggja lokahönd á stofnun Atvinnufjélagsins, hagsmunafélags sem helgað verður starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Þar segir að Atvinnufjélagið muni vinna markvisst og skipulega að hagsmunavörslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og einyrkja í öllum atvinnugreinum. Talsvert hafi skort á sýnileika og hagsmunagæslu hjá þessum hlutavinnumarkaðarins þótt liðlega 70% alls starfsfólks starfi innan hans og um 70% atvinnurekenda telji þörf á slíku félagi. Þetta sé í samræmi við könnun sem framkvæmd hafi verið á meðal fyrirtækja í júní 2021.

Í fréttatilkynningu segir að tilgangur og markmið félagsins snúist aðallega um þrjá þætti:

  • Að berjast fyrir einfaldara og sanngjarnara regluverki, að opinberar álögur og gjöld, leyfisveitingar og skattlagning taki mið af stærð félaga og rekstrarumfangi.
  • Það þarf að bæta aðgengi að fjármagni, vextir og veðkröfur eru litlum og meðalstórum fyrirtækjum mjög íþyngjandi.
  • Þá þurfa kjaramál að taka betur mið af hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja m.a. í atvinnugreinum sem voru ekki öflugar fyrir einum til tveimur áratugum svo sem fyrirtæki í ferðaþjónustu, veitingastarfsemi, skapandi greinum, afþreyingu og margs konar nýsköpunarstarfsemi og þjónustu.

„Lýðræðisgrunnur félagsins byggir á jöfnu atkvæðavægi og hefur hvert fyrirtæki eitt atkvæði óháð stærð,enda eru hagsmunamálin þess eðlis að þau sameina hagmuni allra fyrirtækja af þessari stærðargráðu. Félagsgjald verður hófstillt og skiptist í nokkra gjaldflokka sem tekur mið af fjölda starfsmanna.

Öll fyrirtæki geta orðið félagsmenn í Atvinnufjélaginu svo framarlega sem þau hafa hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja að leiðarljósi. Sameiginlega eru lítil og meðalstór fyrirtæki eitt stærsta og sterkasta afl atvinnulífsins,“ segir að lokum í fréttatilkynningu.