Fyrirtækið Suðvestur, sem var nýlega stofnað af Birnu Önnu Björnsdóttur, Láru Björg Björnsdóttur og Silju Hauksdóttur er nú tekið til starfa.

Félagið mun bjóða upp á fjölbreytta þjónustu í samskiptaráðgjöf, almannatengslum og viðburðastjórnun til fyrirtækja, stofnana og einstaklinga.

„Með Suðvestri sjáum við tækifæri til að koma góðum og spennandi hlutum og hugmyndum til leiðar, bæði í formi ráðgjafar, viðburða og því sem hugur okkar stefnir í framtíðinni,“ segir Lára Björg í samtali við Viðskiptablaðið.

Auk meðeigendanna þriggja starfar hópur sérfræðinga á sviði fyrirtækjaráðgjafar, kvikmyndaframleiðslu, hönnunar, leikstjórnar og ritstarfa hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið er staðsett í Bankastræti í miðbæ Reykjavíkur, en hefur einnig skrifstofu í New York borg í Bandaríkjunum.

„Við erum allar með ólíka reynslu og bakgrunn sem vinnur vel saman og höfum gott aðgengi að spennandi ráðgjöfum til að vinna með okkur,“ segir Lára. „Í framtíðinni sjáum við fyrirtækið stækka og eflast og fara í þær áttir sem okkur munu finnast spennandi. Frá því við opnuðum er búið að vera nóg að gera, viðskiptavinum fjölgar ört og við fögnum því.“

Hafa starfað víða

Birna Anna hefur starfað við fréttaskrif og ritstörf áratugum saman. Hún hefur verið blaðamaður á Morgunblaðinu auk þess sem hún hefur gefið út tvær skáldsögur, og sú þriðja er í vinnslu. Hún er með BA gráðu í heimspeki frá HÍ og MA gráðu í bókmenntafræði frá New York Háskóla.

Lára Björg hefur unnið sem blaðamaður um árabil, og starfaði meðal annars á Viðskiptablaðinu. Einnig hefur hún starfað við almannatengsl og skipulagningu viðburða, verið sérfræðingur hjá Landsbankanum og fastanefnd NATO. Lára hefur lengi verið vinsæll pistlahöfundur. Hún er með BA gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands.

Silja Hauksdóttir hefur starfað við skriftir, leikstjórn og kvikmyndaframleiðslu í tvo áratugi. Meðal þess sem hún hefur leikstýrt má nefna 'Dís', 'Ríkið', 'Stelpurnar', auk tveggja áramótaskaupa Ríkisútvarpsins. Silja er með BA gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og lauk diplómanámi í kvikmyndagerð frá FAMU í Prag, auk námi í handritaþróun frá Binger Filmlab í Amsterdam.