Ný lögmannsstofa hefur tekið til starfa á Köllunarklettsvegi 2 í Reykjavík undir heitinu Lögmannsstofan Sævar Þór & Partners. Lögmennirnir Sævar Þór Jónsson og Lárus Sigurður Lárusson eru meðal eigenda. Lögmannsstofan Sævar Þór & Partners sinnir fjölbreyttum verkefnum á sviði lögfræði. Auk Sævars og Lárusar starfar Sveinn Ævar Sveinsson hjá nýju lögmannsstofunni sem mun síðan bæta við sig lögmönnum á næstunni.

Sævar Þór Jónsson hefur meira en áratuga reynslu í lögmennsku. Hann starfaði áður hjá Lögmönnum Sundagörðum í sex ár auk þess að vera einn af stofnendum stofunnar ásamt Hlyni Ingasyni lögmanni. Þar áður starfaði Sævar sem deildarstjóri á eftirlitsdeild skattstjórans í Reykjavík. Í störfum sínum sem lögmaður hefur Sævar komið að fjölbreyttum verkefnum á hinum ýmsum sviðum lögfræðinnar.

Sævar hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og tekið þátt í stjórnun og uppbyggingu þeirra ásamt því að sinna ráðgjafastörfum fyrir bæði erlenda og innlenda fjárfesta. Sævar var einn af stofnendum og eigendum Lotus Car Rental og sat í stjórn fyrirtækisins og tók virkan þátt í uppbygginu þess til ársins 2016 þegar hann seldi sinn hlut í fyrirtækinu. Þá situr Sævar í stjórn Ajtel Iceland en fyritækið starfar á sviði sjávarútvegs og sérhæfir sig í sölu sjávarafurða til Evrópu.

Sævar átti einnig sæti í úrskurðarnefnd vátryggingarmála frá árinu 2010 til 2018. Á árunum 2017 til 2018 sat Sævar í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar.  Þá hefur Sævar sinnt ráðgjafarstarfi á sviði skattlagningu í ólíuvinnslu hér heima og erlendis. Hann hefur sinnt kennslu á sviði skattaréttar. Sævar er einnig löggiltur fasteignasali og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og Babson College í Boston, Bandaríkjunum.

Lárus Sigurður Lárusson starfaði ásamt Sævari hjá Lögmönnum Sundagörðum á þriðja ár en áður vann hann sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu í rúm fimm ár áður en hann fór að leggja stund á lögmennsku. Þar áður var hann lögfræðingur hjá Persónuvernd.

Lárus starfaði sem lögfræðingur hjá ríkinu í meira en áratug og hefur því mikla reynslu og þekkingu á stjórnsýslurétti fyrir utan þau réttarsvið sem hann starfaði á, samkeppnisrétti og persónuupplýsingarétti. Hann situr í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna og er varaformaður stjórnar. Hann situr einnig í stjórn um heiðuslaun listamanna og er varamaður í stjórn listamannlauna.