Vinsældir norðlensku þjóðlagaþungarokkshljómsveitarinnar Skálmöld hafa verið nokkuð meiri en meðlimir áttu von á. Fyrsta plata sveitarinnar, Baldur, kom út fyrir síðustu jól og seldist fyrsta upplag hennar fljótt upp. Sveitin hefur nú skrifað undir samning hjá erlendu plötufyrirtæki og kemur Baldur út á alþjóðavísu nú í júlí.

Útrás hinnar rammíslensku Skálmaldar, sem leitar í Íslendingasögur í textasmíðum, er meðal ástæðna þess að stofnað var til samlagsfélagsins Skálmöld sf. Björgvin Sigurðsson, söngvari hljómsveitarinnar, staðfestir að um sé að ræða samlagsfélag dauðans. Hann segir að í raun sé þetta orðið aðeins stærra en stóð til í fyrstu. „Þetta átti að vera menn á besta aldri að spila þungarokk einu sinni í viku.“

Á mála erlendis

Áform hafa hins vegar breyst í takt við vinsældir sveitarinnar. Nýlega var ritað undir plötusamning við austurríska útgáfufyrirtækið Napalm Records og kemur Baldur út á alþjóðavísu nú í júlí. Að sögn Björgvins flokkast flestar hljómsveitir sem eru á mála hjá útgáfufélaginu undir það sem kalla má víkinga- eða þjóðlagaþungarokk.

Aðspurður um hvað sé á döfinni segir Björgvin að nú verði tekinn stuttur túr með færeysku bandi. Spilað verður á Eistnaflugi í Neskaupstað um næstu helgi og á G-Festival í Færeyjum helgina eftir. Samhliða því verða haldnir tónleikar hér og þar bæði á Íslandi og í Færeyjum. Í ágúst verður svo spilað á þungarokkshátíðinni Wacken í Þýskalandi og næsta haust mun hljómsveitin fara í fjögurra vikna túr um Evrópu á vegum Napalm Records.