*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 18. maí 2018 15:42

Stofna samtök um karlaathvarf

Feðrahreyfingin og #DaddyToo stofna samtök um að koma á fót athvarfi fyrir karla sem verða fyrir ofbeldi.

Ritstjórn
Hlutafélagaskrá er staðsett á Laugavegi 166, sama stað og Ríkisskattstjóri
Haraldur Guðjónsson

Samtök um Karlaathvarf voru formlega stofnuð í dag þegar nokkrir af forkólfum samtakanna koma saman hjá hlutafélagaskrá að Laugarvegi 166 til að leggja inn formlega skráningu fyrir félagsskapinn.

Þeir einstaklingar sem standa að baki Samtaka um Karlaathvarf eru í forsvari fyrir nokkur félög sem kennd eru við hinar svokölluðu „feðrahreifingu.“

Eftir að aðgerðahópurinn #DaddyToo var stofnaður segja þeir að mikil vitundarvakning hafi orðið á nauðsyn þess að karlmenn sem eru beittir ofbeldi geti leitað í stuðning og ráðgjöf.

„Það er von okkar að sem flest áhugafólk og sérfræðingar sem láta sig þessi mál varða muni koma að borðinu með okkur til að byggja starfið upp,“ segir í tilkynningu hópsins. „Þetta er grettistak og mikil þörf fyrir slíka þjónustu fyrir hin fjölmörgu karlkyns fórnarlömb ofbeldis og kúgunar.“

Nokkrar greinar úr lögum samtakanna:

1.gr. Félagið heitir Samtök um karlaathvarf
2. gr. Tilgangur samtakanna:

  • 1. Að reka athvarf fyrir karla og börn þeirra sem hafa orðið fyrir andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Að veita þolendum misréttis og mismununar er lítur að rétti barna til beggja foreldra stuðning.
  • 2. Að veita ráðgjöf og upplýsingar, efla fræðslu og umræðu um ofbeldi sem beinist gegn körlum og börnum þeirra. Að leiðrétta ranghugmyndir um að ofbeldi sé kynbundið, enda eru karlmenn ekki síður þolendur ofbeldis heldur en konur. 
  • 3. Starfa að réttindamálum barna með rannsóknum og upplýsingagjöf. Að berjast fyrir jöfnum rétti barna til beggja foreldra sinna. Tala gegn tálmanamenningu sem er við líði á Íslandi og beita sér fyrir því að til séu úrræði til að bregðast við slíku ofbeldi. 
  • 4. Vera málsvari karlmanna og barna þeirra og berjast gegn þeirri gegnsýrðu hugmyndafræði sem hefur náð að skjóta rótum í Íslensku samfélagi, sem skekkir verulega alla fjölmiðlaumræðu. Berjast gegn þeirri meðvirkni sem er með foreldraútilokun og/eða réttindabrotum er lúta að takmörkuðum tíma barna með öðru hæfu foreldri sínu. 
  • 5. Stuðla að því að þjóðfélagið, lög þess og stofnanir fari eftir 65.gr. Stjórnarskrár Íslands og mismuni ekki fólki á grundvelli kyns; að í málsmeðferð forsjármála sé ekki hyglað öðru foreldrinu út frá kynferði þess.

3. gr. Félagið hyggst bjóða upp á faglega sérfræðiráðgjöf fyrir skjólstæðinga athvarfsins og skammtímadvöl í húsnæði samtakanna. Vera vettvangur fyrir umræðu um ofbeldi gegn karlmönnum og börnum þeirra. Staður til að fá stuðning og geta deilt reynslu sinni.

Stjórn samtakanna skipa:

  • Huginn Þór Grétarsson
  • Gunnar Kristinn Þórðarson 
  • Freiðgeir Örn Hugi Ingibjartsson 
  • Kristinn Sæmundsson