Byggðaráðstefna Íslands var haldin á Patreksfirði um helgina. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Sókn sjávarbyggða. Kemur framtíðin? Koma konurnar?“ en Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var meðal þeirra sem ávarpaði ráðstefnuna.

Þar kynnti hann meðal annars sérstakan byggðarannsóknarsjóð sem settur verður á laggirnar, þar sem ljóst sé að það vanti gögn og fræðilegan grunn til að byggja á og erfiðlega hafi gengið að fjármagna byggðarannsóknir í gegnum samkeppnissjóði sem til staðar séu.

Mun sjóðurinn hafa til ráðstöfunar allt að 10 milljónum króna á ári næstu þrjú árin að minnsta kosti. Með sjóðnum er vonast til þess að öflugir rannsóknaraðilar sæki í sjóðinn og rannsóknir þeirra verði mikilsverður grunnur við mótun byggðastefnu.