Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA) undirbýr stofnun sjóðs sem fjárfesta mun í ungum sprotafyrirtækjum. Þá áformar ríkisstjórnin að beita skattalegum hvötum til að örva fjárfestingu í nýsköpun. Þetta segir í tilkynningu frá NSA, en ársfundur sjóðsins var haldinn í dag.

NSA hagnaðist um 201 milljón króna á síðasta ári, en tekjur félagsins verða fyrst og fremst til við sölu á eignarhlutum í fyrirtækjum. Sjóðurinn seldi á síðasta ári eignarhlut sinn í Kerecis, Primex og Alur, álvinnslu.

Í opnunarávarpi sínu á ársfundinum sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra að NSA stæði fremst í fjárfestingum í nýsköpunarfyrirtækjum á Íslandi. Ríkisstjórnin hafi ákveðið að hækka framlag til tækniþróunarsjóðs og áformað væri að beita skattalegum hvötum vegna fjárfestinga í nýsköpun.

Tilfinnanlega vanti fjármagn

Almar Guðmundsson stjórnarformaður NSA kynnti hugmyndir innan sjóðsins um að stofna sérstakan sjóð, undir nafninu Silfra, þannig að hægt væri að auka fjármagn í nýfjárfestingar. Sagði hann að vonir stæðu til þess að ljúka undirbúningi að stofnun nýs sjóðs á næstu vikum. Tilfinnanlega vanti fjármagn á allra fyrstu stigum nýsköpunar.

Helga Valfells framkvæmdastjóri NSA sagði í sínu erindi að áhugi erlendra fagfjárfesta á íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum væru sífellt að aukast. „Réttur fjárfestir getur skilað útflutningsfyrirtækjum mikilvægri markaðs- og söluþekkingu. Í lok árs 2014 átti NSA hlut í 34 fyrirtækjum, með tæpa 4 milljarða króna í veltu, en af því voru um 70% gjaldeyristekjur. Hjá þessum fyrirtækjum starfa hátt í 400 starfsmenn“ sagði Helga.