Ríkisstjórnin ákvað á fundi í morgun að skipa sérstakan starfshóp til þess að gera tillögur að breytingum á reglugerðum um skattaundanskot. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Fjármálaráðuneytisins.

Í hópnum verða fulltrúar frá forsætis-, fjármála- og efnahagsráðuneyti auk fulltrúa frá Ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra. Starfshópurinn á að ljúka vinnu sinni og skila tillögum til ríkisstjórnarinnar fyrir þann 30. júní þessa árs.

Í tilkynningunni segir að fjármála- og efnahagsráðuneytið vinni þegar að því að meta umfang fjármagnstilfærslna og undanskota á aflandssvæðum. Slíkt mat myndi nýtast til að áætla tekjutap hins opinber af slíkri starfsemi og staðfesta fjárhagslega þýðingu þess að vinna gegn undanskotum.