Meginverkefni starfshóps sem Alma Tryggvadóttir lögfræðingur mun stýra í nýju starfi hjá Landsbankanum verður að undirbúa og að- laga starfsemi bankans að nýrri persónuverndarlöggjöf sem kemur til framkvæmda árið 2018.

„Þetta er gríðarlega spennandi verkefni hérna fram undan hjá Landsbankanum, sem flestöll fyrirtæki þurfa að huga að,“ segir Alma sem hóf störf hjá Persónuvernd sem laganemi meðan hún var í námi og hefur hún starfað sem skrifstofustjóri Upplýsingaöryggis síðustu ár en einnig var hún um tíma starfandi forstjóri. „Ég var beðin um að brúa bilið meðan auglýst var eftir nýjum forstjóra.“

Alma býr í dag ásamt sambýlismanni sínum, Stefáni Guðmundssyni, og tæplega fimm ára dóttur þeirra Helgu Birnu, í Hafnarfirði.

„Það er nú ástæða fyrir því að ég, Vesturbæingurinn bý í Hafnarfirði, en við fjölskyldan erum með hesta og hér er stutt að fara í hesthúsið. Við höfum öll mjög gaman af því að sinna hestunum og fæ ég mjög mikið út úr því að vera úti í íslenskri náttúru hvort sem er á hestbaki, í gönguferðum eða við veiðar.“

Alma getur þó ekki setið á sér að nefna einnig annað af hennar helstu áhugamálum.

„Ég get ekki sleppt því að minnast á það fyrst það er nú Eurovision vertíð að ég stofnaði á sínum tíma Eurovision aðdáendaklúbbinn Fáses með góðu fólki og fylgist mikið með Eurovision auk þess að hafa farið nokkrum sinnum á keppnina,“ segir Alma spennt en félagið var stofnað eftir að hún og vinkona hennar fóru á keppnina í Ósló árið 2010.

„Þar kynntumst við öðrum aðdáendum en við rekum okkur öll á það að við eigum erfitt með að komast inn á Euroklúbbana svokölluðu og hafa sama aðgang og aðrir formlegir aðdáendur svo við ákváðum þegar við komum heim að Ísland þyrfti sinn eigin klúbb sem er núna orðinn einn stærsti og virkasti aðdáendaklúbburinn í Evrópu.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .