Emilie Konge Breindal stofnaði fyrirtæki sitt Konges Sløjd árið 2014. Þá var Emilie einstæð 24 ára móðir.

Ævintýrið hófst þegar hún setti inn mynd á Instagram af barnadóti sem hún hafði búið til. Margir sýndu áhuga á að kaupa vörur af henni.

Hún ákvað þá að stofna fyrirtæki utan um hugmyndir sínar og fyrsta starfstöðin hennar var í kjallara á Vesturbrú í Kaupmannahöfn. Fyrirtækið sem heitir Konges Sløjd framleiðir barnaföt, barnaleikföng og húsgögn. Ekki eru notuð kemísk efni við framleiðsluna og vörurnar eru í hlutlausum litum.

Gríðarlegur vöxtur síðustu ár

Vöxturinn var hægur fyrstu árin en frá árinu 2018 hefur hann verið gífurlegur og afkoman stórgóð. Hagnaður félagsins nam 52 milljónum danskra króna árið 2020, eða rétt tæpum milljarði íslenskra króna. Félagið hefur ekki skilað ársreikningi vegna ársins 2021.

Selur meirihlutann eftir átta ár

Á dögunum seldi Emilie, nú 32 ára gömul, meirihluta fyrirtækisins til breska sjóðsins 3i. Samkvæmt heimildum Börsen er verðmæti fyrirtækisins yfir milljarður danskra króna, eða yfir 18 milljarða íslenskra króna.

Emilie talar sjaldan við fjölmiðla en í skriflegu svari til Börsen segist hún vonast til þess að árangur hennar sé öðrum konum hvatning.

Ég myndi óska að fleiri, sérstaklega konur, hefðu hugrekki til að skapa þeirra eigið.“

Emilie segir að breytt eignarhald breyti engu um störf sín hjá fyrirtækinu og að hún sé rétt að byrja.

Hvorki Emilie né aðrir stjórnendur félagsins vilja tjá sig um söluverðið.