Þrír þingmenn Samfylkingarinnar vilja að Alþingi skori á ríkisstjórnina að stofna umbótasjóð sem ætlað verði að styðja við uppbyggingu nýrrar þjónustu eða nýtt hlutverk opinberra bygginga sem misst hafa hlutverk sitt.

Í greinargerð með tillögunni sem Margrét Gauja Magnúsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Össur Skarphéðinsson leggja fram segir að verndun bygginga ætti að verða að föstum þætti í skipulagi borga og byggða í stað þess að vera handahófskennt aukaatriði.

„Það er þjóðhagslega mikilvægt verkefni að finna sögufrægum byggingum verðugt hlutverk þegar þær hafa misst upprunalegt hlutverk sitt. Þess eru dæmi að byggingar hafi verið látnar standa auðar í langan tíma og látnar drabbast niður, sbr. St. Jósefsspítala. Það er áríðandi, m.a. með tilliti til sögu, menningararfs og sparnaðar, að finna lausn á því hvernig best megi tryggja að byggingar séu nýttar á sem hagkvæmastan hátt,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Bent er á að Evrópusambandið hafi sett á laggirnar sjóð undir yfirskriftinni Svæðisbundnir innviðir fyrir félagslega og fjárhagslega samhæfingu (e. Local infrastructure for Social and Economic Cohesion) sem hafi meðal annars haft að markmiði að styrkja endurreisn bygginga sem hafi drabbast niður eða orðið fyrir tjóni til þess að þær gagnist nærsamfélaginu á sem hagkvæmastan hátt og öðlist hlutverk á ný.