Margir stofnanafjárfestar eins og lífeyrissjóðir víða um heim hafa verið að skipta út hlutabréfum sínum fyrir skuldabréf í eignasöfnum sínum á undanförnum árum. Þeir hafa einnig snúið sér í auknum mæli að öruggari eignum eins og fasteignum og hrávöru.

Stór þáttur sem hefur rekið þessa þróun hafa verið hertari reglugerðir um reikningsskil lífeyrissjóða og tryggingarfyrirtækja. Á bolamarkaðnum á níunda og tíunda áratug síðustu aldar gáfu hlutabréf af sér svo góða ávöxtun að mörg fyrirtæki, sem fjármagna lífeyrisgreiðslur eigin starfsmanna, þurftu á löngum tímabilum ekki að leggja fé inn í sjóðina eins og þau voru vön að gera. Þegar bólan sprakk gjörbreyttist umhverfið og skapaðist mikil gjá á milli skuldbindinga og eigna sjóðanna. Vegna þessa hafa sjóðirnir í auknum mæli beint sjónum sínum að því hvernig þeir geti best haldið jafnvægi á milli skuldbindinga og eigna fremur en að stefna að sem hæstri langtímaávöxtun. Niðurstaða margra hefur verið sú að vaxtagreiðslur frá skuldabréfum og eignum, sem gefa af sér stöðugt flæði fjármagns, tryggi best stöðugar lífeyrisgreiðslur til fyrrum starfsmanna.

Smásölufyrirtækið Boots setti allar lífeyriseignir starfsmanna sinna í skuldabréf árið 2000 þrátt fyrir að fyrirtækið hafi síðan breytt eignasamsetningunni þannig að núna liggi um 10% eignanna í hlutabréfum. Önnur fyrirtæki hafa tekið samskonar en minni skref. Alþjóðlegi bankinn UBS metur það svo að stórfyrirtæki eins og Reuters, GlaxoSmithKline, Cable & Wireless og Friends Provident hafa skorið hlutabréfaeign sína niður um 20% á síðustu fjórum árum. Eignarhluti breskra lífeyrissjóða í hlutabréfum hefur fallið úr 73,6% niður í 65,7% á sama tímabili samkvæmt Watson Wyatt, sem sinnir ráðgjöf fyrir lífeyrissjóði. Bæði vegna lækkandi verðs á hlutabréfum og vegna breyttri eignasamsetningu.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.