Hafinn er undirbúningur að umbunarkerfi fyrir starfsmenn IKEA um allan heim og er það draumur Ingvar Kamprads, stofnanda fyrirtækisins, að hann geti komið á slíku kerfi áður en hann sest í helgan stein.

Þetta kemur fram í áréttingu frá Ikea á Íslandi í framhaldi af frétt í netútgáfu Viðskiptablaðsins, vb.is, í morgun þar sem draga mátti þá ályktun að þegar væri búið að innleiða bónuskerfið. Það mun ekki vera raunin.

Ingvar Kamprad sagði í árlegri jólaræðu sinni fyrir starfsfólk Ikea í Älmhult í Svíþjóð að hann ynni nú að þróun umbunarkerfis sem hann dreymi um að verði að veruleika áður en hann setjist í helgan stein. „Ég er enn að skoða nokkrar mismunandi leiðir og það er draumur minn að eftir nokkur ár í starfi muni sérhver starfsmaður IKEA fá einhvers konar aukaumbun fyrir framlag sitt. Sú umbun yrði aftur á móti að vera sú sama fyrir alla starfsmenn, óháð hvaða stöðu þeir gegni hjá fyrirtækinu. Ef mér tekst þetta, verður það síðasta stórfellda framlag mitt til IKEA okkar, fyrirtækis sem vill fara óhefðbundnar leiðir,“ sagði stofnandinn.

Eins og fyrr segir er vinna við kerfið enn á frumstigi, og því ekki hægt að segja til um hvenær því yrði mögulega komið á, en IKEA á Íslandi myndi að sjálfsögðu fagna slíku framtaki, að því er fram kemur í áréttingu frá Ikea hér á landi.