Stefán Baxter, annar stofnenda og hugmyndasmiður hugbúnaðarfyrirtækisins Activity Stream, hefur látið af störfum hjá fyrirtækinu. Samkvæmt tilkynningu frá Activity Stream hefur hann snúið sér að öðrum verkefnum í tengslum við breytingar hjá fyrirtækinu.

Breytingarnar sem um ræðir eru þær að Activity Stream hefur kynnt nýja og endurbætta útgáfu af hugbúnaði fyrirtækisins. Útgáfan kemst um leið í notkun hjá fjölda viðskiptavina, meðal annars MGM Grand í Las Vegas, fjöldi stærstu íþróttaliða Bandaríkjanna og ýmsir þekktir tónleika- og viðburðastaðir. Þetta kemur í kjölfar samninga við AXS, sem er eitt stærsta miðasölufyrirtæki heims.

Hæst bera í þessari útgáfu endurbætur á virkni sem kallast „Channels“ sem gerir notendum sem vinna með ört stækkandi flókin gagnasöfn og margvíðar rekstrarupplýsingar kleift að fá ábendingar með aðstoð gervigreindar í stað þess að eyða dýrmætum tíma í greiningar og skýrslugerð.

„Það eru klár forréttindi frumkvöðla að sjá hugmynd sínar verða að eftirsóknarverðri vöru,“ segir Stefán Baxter í tilkynningunni, en hann fagnar því að fá aukið ráðrúm til að sinna persónulegum málum. „Undanfarin ár hafa verið krefjandi og allt lagt í sölurnar til að tryggja undirstöður næsta æviskeiðs Activity Stream. Það verður spennandi að fylgjast með sigurgöngu félagsins á komandi mánuðum og árum.“

Einar Sævarsson, framkvæmdastjóri Activity Stream, segir engan hafa lagt jafn mikið af mörkum og Stefán.

„Það er alltaf stór hjalli að koma á markað hugbúnaði og ber að þakka þeim stóra samheldna hópi starfsmanna Activity Stream sem margir hafa lagt nótt við dag við að koma vörunni í hendurnar viðskiptavina. En að öðrum ólöstuðum hefur enginn lagt jafn mikið af mörkum og raðfrumkvöðullinn Stefán Baxter, stofnandi Activity Stream, sem nú sér hugmyndina umbreytast í verðmætt verkfæri í höndum alþjóðlegra fyrirtækja. Fyrir það eru hluthafar, stjórn og starfsfólk ævinlega þakklátt,“ segir Einar.

Nýlega gerði Activity Stream einnig samning um að opna á viðskipti við stærsta miðasölufyrirtæki heims, Ticketmaster, og standa yfir lokaprófanir á samþættingu við eitt af þeirra helstu miðaafgreiðslukerfum.

Einnig var nýlega kynnt ný lausn, AS for Energy, í samstarfi við eTactica, en lausnin eykur rekstrarhagkvæmni með því að draga úr rafmagnsnotkun.