Athafnamaðurinn Lou Pearlman, sem alræmdur er fyrir að hafa stofnað drengjasveitina Backstreet Boys, var í gær dæmdur af dómstól í Flórída í 25 ára fangelsi.

Ekki var sökin sú að hafa stofnað umrædda hljómsveit, heldur var hann fundinn sekur um að hafa svikið út um 300 milljónir dala á seinustu tuttugu árum, peningaþvætti og að hafa borið ljúgvitni fyrir dómi.

Einnig var hann dæmdur til að greiða um á áttundu tug milljóna króna í sekt.

Sveik út um 400 milljónum dollara

Pearlman var handtekinn í Indónesíu árið 2007, en þá var hann búinn að vera á flótta undan lögreglunni um skeið.

Réttarhöldin yfir honum leiddu í ljós að ekki aðeins hefði hann blekkt fjölskyldumeðlimi og vini til að leggja stórar fjárhæðir í tvö gervifyrirtæki, samtals um 300 milljónir dollara, heldur er hann einnig grunaður um að hafa svikið um 100 milljónir dollara til viðbótar úr ýmsum bönkum.

Hann hefur boðist til að aðstoða yfirvöld við að endurheimta sem mest af fjármununum. Pearlman hefur þó ekki aðeins verið bendlaður við efnahagsbrot því fyrir nokkrum árum var hann kærður fyrir að hafa kynferðislega misnotað Nick Carter, en sá er einn meðlima fyrrnefndrar drengjasveitar.