Ef miðað er við lista Forbes er stofnandi Bitcoin orðinn 44 ríkasti maður í heimi, það er ef miðað er við hápunkt rafmyntarinnar í fyrradag þegar hún fór upp í 19.771 Bandaríkjadal. Þegar þetta er skrifað hefur verðgildið þó lækkað niður í 18.025 dali, en þegar grein Business Insider um málið var skrifuð hafði verðgildið lækkað niður í 18.981 dali.

Ef miðað er við þetta verð þá er viðkomandi þó enn inn á listanum yfir 50 ríkustu menn í heimi, einu sæti undir sáti arabíska prinsinum Alwaleed bin Talal og einu sæti yfir rússneska efna- og olíumilljarðamæringnum Leonid Michelson. Ef miðað er við fyrra verðið er hann sæti ofar en prinsinn og þá fyrir neðan Laurene Powell Jobs, eiginkonu Steve Jobs, stofnanda Apple.

Stofnandi Bitcoin, sem talinn er ráða yfir 980 þúsund einingum af Bitcoin sem legið hafa óhreyfðar frá því að rafmyntin hóf göngu sína 3. janúar árið 2009 eða þar um bil. Í kóðanum er vísun í forsíðu The Times frá þeim degi með fyrirsögn um að enn einu sinni verði bankarnir leystir út af fjármálaráðuneytinu.

Ýmsir hafa verið nefndir til sögunnar sem mögulegir stofnendur rafmyntarinnar, sem gengur undir dulnefninu Satoshi Nakamoto, en engum hefur tekist að sanna það með því að sýna eignarhald á fyrstu bitcoineiningunum.

Miðað við verðið þegar þetta er skrifað er heildarverðmæti þessar 980 þúsund hluta 17.665 milljónir dala, eða sem nemur um 1.868 milljarða íslenskra króna. Ef miðað er við hæsta verðið er heildarverðmætið 19.376 milljónir dala, eða 2.050 milljarðar króna.