Jim Balsillie, sem þar til fyrir um ári síðan var annar tveggja forstjóra Blackberry, hefur selt öll hlutabréf í fyrirtækinu sem hann hjálpaði til við að stofna fyrir tuttugu árum. Balsillie var á sínum tíma þriðji stærsti hluthafi Blackberry, sem hét á þeim tíma Research In Motion, og átti í janúar í fyrra 5,1% hlut í fyrirtækinu.

Hann var látinn taka pokann sinn ásamt hinum forstjóranum, Mike Lazaridis, í fyrra eftir að fyrirtækið klúðraði útgáfu nýrra tækja og að markaðshlutdeild fyrirtækisins dalaði hratt í samkeppninni við Apple og Samsung.

Í frétt Bloomberg segir að ekki sé ljóst hvenær Balsillie seldi hlut sinn í félaginu, en hugsanlega hafi hann selt bréfin eftir að þau hækkuðu töluvert á fjórða ársfjórðungi 2012. Þá höfðu þau hækkað um 58% vegna bjartsýni fjárfesta á velgengni nýrrar línu snjallsíma.