Stofnandi Enron orkurisans, Kenneth Lay, fannst látinn í íbúð sinni í Aspen í Colorado í Bandaríkjunum. Sjónvarpsstöðin CNN greindi frá þessu fyrir skömmu en um frekari tildrög andlátsins var ekki vitað í fyrstu. Síðar kom í ljós að hann hafði fengið hjartaáfall.

Samkvæmt nánari upplýsingum CNN þá mun Lay hafa verið fluttur á Aspen Valley Hospital í nótt.

Lay var sem kunnugt er dæmdur til fangelsisvistar fyrir skömmu vegna aðkomu sinnar að Enron hneykslinu.

Kenneth Lay, var stofnandi og stjórnarformaður Enron, og varð hann 64 ára í apríl síðastliðnum.

Í lok maí síðastliðins fann kviðdómur í Texas Kenneth Lay og Jeffrey Skilling, fyrrverandi yfirmenn Enron, seka um margvísleg svik og um að bera meginábyrgð á gjaldþroti fyrirtækisins árið 2001. Var þess vænst að refsing yfir þeim lægi fyrir í september næstkomandi.