Mark Zuckerberg stefnir hraðbyr að því að verða á meðal fimmtíu auðugustu einstaklinga í heimi með skráningu Facebook á hlutabréfamarkað í gær.

Samkvæmt útreikningum sérfræðingum Yahoo nemur virði eigna hans 16 milljörðum dala, jafnvirði 2.000 milljörðum íslenskra króna.

Í útreikningunum er miðað við verðlag á hlutabréfum Facebook í hlutafjárútboði, 38 dalir á hlut. Markaðsverðmæti Facebook nemur því samkvæmt rúmum 100 milljörðum dala.

Fjárfestar ekki kátir með Facebook

Beðið hefur verið eftir kauphallarskráningu Facebook um nokkurt skeið og talað um að hún sé einhver sú rosalegasta síðan Google var skráð á markað fyrir tæpum áratug. Fjárfestar og markaðsaðilar vestanhafs voru í skýjunum þegar hlutabréf Facebook voru tekin til viðskipta. Þau ruku upp um rúm 10% í fyrstu viðskiptum og náðu 42 dölum á hlut áður en þau tóku að lækka. Hækkunin nam á endanum 0,61% frá hlutafjárútboði og voru þau aðeins 23 sentum verðmæti í lok dags en daginn áður. Í netútgáfu bandaríska dagblaðsins Los Angeles Times er fjallað um þennan fyrsta viðskiptadag með hlutabréf Facebook og þeirri spurningu slegið fram hvort fyrirtækið muni standa undir væntingum fjárfesta.

Hvað sem því líður er auður Zuckerbergs að nær öllu leyti fastur í hlutabréfum Facebook og er honum óheimilt að selja hlutinn í einu lagi. Bandaríska stórblaðið Wall Street Journal telur engu að síður líklegt að Zuckerberg verði sér úti um skotsilfur og selji hluta af eign sinni á einhverjum tímapunkti.

Hér má sjá Mark Zuckerberg og starfsfólk Facebook hringja kauphallarbjöllunni í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Menlo Park í Kaliforníu í gær.