Josh Greenberg, sem stofnaði tónlistarveituna Grooveshark árið 2006, fannst látinn á heimili sínu í Flórída síðasta sunnudagskvöld. Hann var aðeins 28 ára gamall.

Samkvæmt tilkynningu lögreglu um málið bendir ekkert til þess að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað eða að um sjálfsmorð sé að ræða.

Grooveshark hætti starfsemi fyrr á árinu eftir að hafa átt í stöðugum málaferlum við fjölda plötufyrirtækja og rétthafa á tónlist. Bandarískur dómstóll hafði komist að þeirri niðustöðu að eigendur vefsíðunnar gætu þurft að greiða allt að 736 milljónir dala í skaðabætur vegna brota á höfundarétti.

Í kjölfarið gerðu forsvarsmenn Grooveshark sátt við fjölda rétthafa og lögðu niður starfsemina ásamt því að birta yfirlýsingu á vefsíðunni , þar sem fram kom að þeir hefðu gert mistök með því að hafa ekki sótt um leyfi fyrir birtingu á höfundarréttarvörðu efni.

„Það var rangt. Við biðjumst innilegrar afsökunar,“ sagði í yfirlýsingunni.