Íslenska sprotafyrirtækið OverTune hefur lokið sinni fyrstu fjármögnun. Bæði erlendir og íslenskir aðilar tóku þátt og fjárfesta í framtíðarvexti fyrirtækisins. Athygli vekur að englafjárfestirinn Charles Huang er einn fjárfestanna en hann er stofnandi Guitar Hero, eins vinsælasta tónlistartölvuleiks allra tíma. Vísisjóðurinn Brunnur Ventures leiddi fjármögnunina.

OverTune þróar hugbúnað sem gerir hverjum sem er kleift að skapa tónlist, án bakgrunns í tónlist eða þekkingar á tónsmíðaforritum, og leyfir notendum á einfaldan hátt að deila tónlist sinni á samfélagsmiðla eins og TikTok og Instagram Reels.

„Það að fjárfestar á þessum skala veðji á það að OverTune muni umbylta tónlist er ánægjulegt og gefur fyrirtækinu byr undir báða vængi til þess að vaxa hratt og örugglega. Að fá slíka fjármögnun inn í félagið á þessum tímapunkti eru góðar fréttir fyrir íslenska sprotaumhverfið,“ segir Sigurður Ásgeir Árnason , framkvæmdastjóri OverTune, í fréttatilkynningu.

Félagið er núna að hefja sína aðra fjármögnunarumferð og er markmiðið að safna tveimur milljónum Bandaríkjadollara, sem samsvarar 246 milljónum króna.

Stofnendur og starfsmenn félagsins hafa áralanga reynslu í sprota og afþreyingariðnaði en þeir eru Jason Daði Guðjónsson hönnunarstjóri, fyrrum stofnandi Hip Hop hátíðarinnar og verkefnastjóri hjá nýsköpunarfyrirtækinu OZ, Pétur Eggerz Pétursson vörustjóri en Pétur var áður tæknistjóri HN Markaðssamskipta og fyrrum stofnandi framleiðslufyrirtækisins Motive, Sigurður Ásgeir Árnason framkvæmdastjóri OverTune en hann er fyrrum tónlistarmaður og var áður yfirmaður viðskiptaþróunar hjá Larsen Energy Branding. Einnig starfar hjá félaginu Ari Björn Ólafsson forritari.