Á heimasíðu matvælaframleiðandans Iceland má finna heiftarlega úttekt á rekstri fyrirtækisins undanfarin ár. Stofnandi fyrirtækisins, Malcolm Walker, tók aftur við rekstri þess í fyrra eftir að hafa dregið sig úr rekstri fyrirtækisins árið 2001 og dylst engum að Walker er bálreiður fráfarandi stjórn fyrirtækisins.

Walker seldi helming hlutabréfa sinna í fyrirtækinu árið 2001 fyrir um 1,8 milljarða króna, en skömmu síðar gaf fyrirtækið út afkomuviðvörun og vöknuðu grunsemdir um innherjaviðskipti í kjölfar þess. Í viðtali við The Daily Telegraph segir Walker að hann hafi ekki haft nokkurn grun um að afkomuviðvöruninnar væri að vænta og sagðist aðeins hafa viljað setjast í helgan stein. Rannsókn málsins lauk svo án nokkurra ákæra, en Walker segist eiga ýmislegt sökótt við framkvæmdarstjórann Bill Grimsey, þar sem ásakanirnar hefðu verið alvarlegar og valdið sér miklum óþægindum.

Íslensku fjárfestingarfélögin Baugur Group og Fons keyptu svo meirihluta í fyrirtækinu, sem þá hafði verið endurnefnt The Big Food Group, árið 2005 og var fyrirtækinu skipt upp í kjölfar þess og Walker ráðinn aftur sem framkvæmdarstjóri Iceland.
Á heimasíðu fyrirtækisins er tímabilinu frá 2001 til 2005 lýst sem hinum myrku miðöldum og er þar ekkert dregið úr lýsingum á vafasömum stjórnunarháttum Grimsey sem hafi leitt til afkomuviðvörunarinnar.

Í höfuðstöðvum fyrirtækisins eys Walker ennfremur úr skálum reiði sinnar og má sjá PowerPoint sýningu þar sem meðal annars birtast myndir af víkingum í ránsferðum. Þar birtir Walker einnig lista yfir helstu ástæður fyrir endurkomu sinni og stendur þar efst á blaði "hefnd". Walker viðurkennir að hann sé enn reiður en bætir þó við að það sé ekki eina ástæðan fyrir endurkomu sinni, því hann hafi enn margt að sanna, segir í frétt The Daily Telegraph.

Walker hefur nú gerbreytt rekstrarstefnu fyrirtækisins og hefur meðal annars lokað fjölda verslana og lækkað vöruverð.
Breytingarnar virðast vera að skila sér, því fyrirtækið skilaði 12,7 milljarða króna hagnaði fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi, en fyrirtækið var rekið með 10,1 milljarðs króna tapi á sama tíma í fyrra. Sölutölur fyrirtækisins eru þó svipaðar, en Walker segist viss um að Iceland geti skilað hagnaði í smækkaðri mynd. Íslensku fjárfestarnir hafa hagnast verulega en fyrirtækið var endurfjármagnað fyrr á þessu ári og greiddu eigendur þess sér tæpa átta milljarða króna í arð. Landsbanki Íslands sá um endurfjármögnun fyrirtækisins og studdi við kaup fjárfestanna á fyrirtækinu.