Eftir að hafa búið í 40 ár erlendis ætlar Ikea-stofnandinn Ingvar Kamprad loksins að flytja aftur heim til Svíþjóðar. Það er sænska dagblaðið Sydsvenskan sem greinir frá þessu. „Ég flut tilbaka til Svíþjóðar til að komast nær minni fjölskyldu og gömlum vinum,“ segir Kamprad meðal annars í gegnum talsmann sinn Per Heggenes í samtali við blaðið.

Kamprad fór frá Svíþjóð árið 1973 og hefur verið búsettur í Sviss undanfarin ár. Hann er í dag 87 ára gamall. Kona hans lést fyrir um einu og hálfi ári síðan og segir Kamprad að það sé nú lítið sem haldi honum í Sviss. Kamprad flytur á búgarð skammt frá bænum Älmhult í Svíþjóð. Kamprad er einn af ríkustu mönnum heims og mun nú borga skatta sína í Svíþjóð. Áður hefur verið tilkynnt að sonur hans, Mathias Kamprad hefur tekið við stjórninni á móðurfélagi Ikea, Inter Ikea, sem á vörumerkið Ikea.