Ingvar Kamprad, stofnandi Ikea-keðjunnar og einn af auðgustu mönnum heims, hefur ráðlagt sænskum ungmennum sem hyggja á feril í viðskiptum að selja kjúkling. Þetta kemur fram að sögn business.dk í nýrri mynd sem á að hvetja sænsk ungmenni til þátttöku í viðskiptalífinu. Lagðar voru spurningar fyrir nokkra helstu framámenn í sænsku viðskiptalífi og þeir m.a. krafðir svara við þeirri spurningu hvað þeir myndu gera, væru þeir sautján ára í dag og þyrftu að byrja frá grunni. Svar Kamprad var svohljóðandi:

„Ég myndi reyna að fá lánaða smávegis fé til að kaupa eldhúsáhöld og steikja nokkra kjúklinga. Síðan myndi ég stilla mér upp fyrir utan stóra verksmðju og held að þar tækist mér að selja góðan skerf af kjúklingunum. Með þessum hætti gæti ég hæglega grætt meira en 10 þúsund krónur [136 þús. Íkr.], að því er ég held,” segir Kamprad.

Samkvæmt lista Forbes-tímaritsins yfir auðkýfinga heimsins er Kamprad ríkasti einstaklingurinn sem fæddur er í Evrópu og sjöundi ríkasti maður í heimi. Metur tímaritið auðlegð hans á 31 milljarð dollara, eða sem nemur um 2542 milljörðum króna.

Kína fyrirheitna landið

Börje Ekholm, yfirmaður Investor AB, stærsta fjárfestingarfélags á Norðurlöndum, ráðleggur hins vegar sænskum ungmennum að þvo bíla og slá gras til að safna sér skotsilfri. Fyrir það eiga þeir síðan að leggja land undir fót og fara til Kína.