Ingvar Kamprad, sem stofnaði húsgagnaverslunina IKEA 17 ára gamall, lést á heimili sínu í Smálöndunum í Svíþjóð, en hann fæddist þar árið 1926. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu er hann sagður hafa látist í friðsæld heimilis síns, og honum lýst sem einum mesta frumkvöðli 20. aldararinnar.

Ingvar stofnaði IKEA með fjármunum sem faðir hans hafði gefið honum fyrir að hafa staðið sig vel í námi þrátt fyrir lesblindu sína að því er segir í frétt BBC . Ingvari er jafnframt lýst sem erkitýpu af frumkvöðli frá suðurhluta Svíþjóðar, vinnusömum og fastheldnum, sem hafi búið yfir mikilli hlýju og góðlátlegri gletni í augunum í yfirlýsingu fyrirtækisins.

Fyrirtækið hefur vaxið gríðarlega síðan hann stofnaði það, meðal annars vegna einfaldleika og lausna sem fyrirtækið hefur boðið upp á í húsgögnum. Í dag hefur fyrirtækið um 389 verslanir um heim allan, og seldi það fyrir um 43 milljarða dali, eða sem jafngildir 4.340 milljörðum íslenskra króna árið 2016. Er það enn í eigu fjölskyldu Ingvars en hann sat sjálfur í stjórn þess þar til árið 2013.

Nafn fyrirtækisins samanstendur af upphafsstöfum hans, IK, en E-ið stendur fyrir nafnið á bóndabænum sem hann ólst upp á, Elmtaryd og A-ið fyrir næsta bæ, Agunnaryd. Er hann sagður hafa komið með þá hugmynd að pakka húsgögnunum í flatar pakkningar þegar hann sá starfsmann fjarlæga lappir undan borði til að koma borðinu fyrir í bíl viðskiptavinar.

Keyrði um á gömlum Volvo

Ingvar Kamprad var þekktur fyrir nýtni og sparsemi, en þrátt fyrir að vera orðinn margmilljónamæringur ferðaðist hann alltaf í almennu farrými og keyrði um á gömlum Volvo.

Sagði hann það vera í eðli fólks frá Smálöndunum að vera nýtið í viðtali á sænsku sjónvarpi árið 2016. „Ef þú lýtur á mig núna, þá held ég sé ekki klæddur í neittu sem ekki var keypt á flóamarkaði,“ sagði hann og lýsti þessu sem hugmyndafræði fyrirtækisins.

„Við höfum Smálöndin í blóðinu, og við vitum hvað hver króna er mikilvæg, jafnvel þó hún sé ekki jafnverðmæt og þegar við keyptum sælgæti og fórum í grunnskóla.“