Bandaríska viðskiptatímaritið Virgina Business hefur tilgreint Guðmund Fertram Sigurjónsson, stofnanda og forstjóra líftæknifyrirtækisins Kerecis, sem einn af hundrað áhugaverðustu viðskiptamönnum í Virginíu.

Árlega fjallar tímaritið um 100 einstaklinga úr ólíkum geirum atvinnulífsins, nú undir yfirskriftinni „100 people to meet in 2022". Þar er Guðmundur Fertram tilgreindur í hópi frumkvöðla.

Kerecis er íslenskt lækningavörufyrirtæki sem hefur þróað tækni þar sem hreinsað fiskroð er notað til að græða margs konar líkamsskaða, t.d. vegna sykursýki, bruna og annarra áverka. Þá eru vörur Kerecis notaðar í skurðaðgerðum af ýmsu tagi.

Fyrirtækið rekur söluskrifstofu á Washington D.C. svæðinu í Bandaríkunum, auk þess sem sölunet Kerecis nær um öll Bandaríkin. Tekjur félagsins hafa nærri tvöfaldast á hverju ári frá því að skrifstofan var opnuð árið 2015.