Kim Dotcom, stofnandi síðunnar Megaupload.com, var í dag látinn laus gegn tryggingu en vefsíðan hefur verið talin ein stærsta skráskiptasíða í heimi. Starfsmenn síðunnar voru á dögunum ákærðir fyrir brot á höfundarréttarlögum en að sögn bandarísku alríkislögreglunnar er þetta eitt umfangsmesta höfundarréttarmál sem rannsakað hefur verið í Bandaríkjunum. Frá þessu segir á vef breska ríkisútvarpsins, BBC. Samkvæmt dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hafa aðstandendur vefsíðunnar hagnast um 175 milljón dollara með dreifingu á höfundarréttarvörðu efni.

Kim Dotcom er 38 ára Þjóðverji og er ákærður fyrir fjársvik, peningaþvætti og brot á höfundarrétti. Óttast var að milljónamæringurinn gæti flúið land en hafa eignir hans nú verið frystar og álitu dómstólar því óhætt að láta hann lausan gegn tryggingu. Þess má til gamans geta að áður hét hann Kim Schmitz en hefur nú löglega breytt nafni sínu í Kim Dotcom. Hann er þekktur fyrir skrautlegan lífstíl en sem dæmi má nefna að síðustu flugeldainnkaup hans kostuðu um 500 þúsund dollara og naut Kim sýningarinnar úr einkaþyrlu ásamt fjölskyldu sinni.