Markus Persson, stofnandi Minecraft, upplifði drauminn þegar hann seldi vinsælan tölvuleik sinn til Microsoft á 2,5 milljarða Bandaríkjadala fyrir ári.

Síðan þá keypti Svíinn sér risahöll í Beverly Hills fyrir 70 milljónir dollara og var hann sagður hafa yfirboðið eitt frægasta par heims, Jay Z og Beyonce. Í innflutningsveislu hans mátti sjá fjölmargar Hollywood stjörnur og fræga tónlistarmenn.

Lúxuslífið virðist þó ekki færa Persson jafn mikla gleði og hann hefði ímyndað sér, ef marka má fjölda tísta sem hann birti á Twitter um helgina. Í einu þeirra skrifar hann:

„Vandamálið við að eignast allt er sú að þig fer að skorta ástæður til að halda áfram að reyna, og mannleg samskipti verða ómöguleg vegna ójafnvægis.“

Hann hélt svo áfram og skrifaði að hann hefði aldrei verið jafn einmana, enda væru flestir hans vinir og fjölskylda vinnandi fólk.

„Ég er hangandi á Ibiza með fullt af vinum og er að djamma með frægu fólki, ég get gert hvað sem ég vil, en samt hef ég aldrei upplifað mig jafn einangraðan,“ skrifaði Persson og hélt áfram:

„Þegar ég er í Svíþjóð bíð ég eftir því að vinir mínir sem eru í vinnu og með fjölskyldu hafi tíma til að gera eitthvað, ég sit og horfi á spegilmynd mína í tölvuskjánum á meðan.“

Þá sagði Persson jafnframt að fyrrum starfsfólk hans hjá Mineccraft hataði sig og í þokkabót getur hann ekki hitt konuna sem hann elskar vegna þess hversu ríkur hann er. Sagði hann að hún vildi frekar vera í sambandi með „eðlilegri manneskju“.

Þess má geta að Persson virtist aðeins hafa jafnað sig síðar meir eftir niðurdrepandi tíst. Hann sagðist hafa fengið mikinn stuðning úr hinum ýmsu áttum og blés á fréttir um að hann væri þunglyndur.