Jeff Taylor, stofnandi stærstu atvinnumiðlunar í heimi Monster.com er staddur á Íslandi. Jeff kom til landsins í morgun frá Boston í Bandaríkjunum, en hann er hingað kominn til að tala á nýsköpunarmessunni Start09, sem fram fer á morgun í Borgarleikhúsinu.

Í tilkynningu frá aðstandendum ráðstefnunnar kemur fram að Jeff er sannkallaður raðfrumkvöðull og hefur tekist að koma fjöldanum öllum af hugmyndum sínum á koppinn, en meðal fjárfesta í nýjustu verkefnum hans eru Seqioa Capital og General Catalyst, sem eru einnig á meðal kjölfestufjárfesta í íslenska leikjafyrirtækinu CCP. Góður vinskapur hefur tekist á milli Jeffs og Hilmars Veigars Péturssonar, framkvæmdastjóra CCP. Jeff er þó að koma í sína fyrstu heimsókn til Íslands.

Fram kemur í tilkynningunni að Start09 er frumkvæði Hermanns Guðmundssonar, forstjóra N1 til að koma atvinnulífinu í gang og hvetja íslenska frumkvöðla til dáða. Jeff hyggst deila af reynslu sinni við að koma hugmyndum í framkvæmd og blása Íslenskum kollegum sínum baráttuanda í brjóst. Einnig kemur til landsins af þessu tilefni hollenskur fyrirlesari að nafni Salem Samhoud og hyggst hann halda erindi um hvernig Íslendingar geti byggt upp nýja framtíðarsýn.

Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis. Húsið opnar kl.08:45 í fyrramálið en dagskráin hefst kl.09:15.

Nánar hér www.n1.is/start