Fjárfestirinn Peter Thiel sem er einna þekktastur fyrir að hafa stofnað PayPal hefur lagt fé úr fjárfestingasjóð sínum, Founders Fund, í sjóðinn Privateer Holdings sem sérhæfir sig í fjárfestingum í kannabisiðnaðinum í Bandaríkjunum. Er þetta í fyrsta skiptið sem að stofnanafjárfestir kemur að slíkum fjárfestingum í Bandaríkjunum.

Ekki liggur fyrir hversu stór fjárfesting Founders Fund er að svo stöddu en hún er liður í fjáröflunarátaki Privateer Holdings sem miðar að því að safna 75 milljón dollara fjárfestingu. Sem stendur er sjóðurinn í viðræðum við aðra umfangsmikla stofnanafjárfesta.

Ár er síðan að Colorado fylki í Bandaríkjunum lögleiddi sölu kannabis í afþreyingarskyni en notkun kannabisefna er lögleg með einu eða öðru móti í 26 fylkjum. Árlega er metið að allur markaðurinn fyrir kannabisefni í Bandaríkjunum, sá svarti meðtalin, sé metinn á um 40 til 50 milljarða bandaríkjadollara.

Nánar er fjallað um málið á vef Guardian og Financial Times .