Þórarinn Ævarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri IKEA, sem og fyrrverandi framkvæmdastjóri Domino´s á Íslandi, og stofnandi pizzustaðarins Spaðans, leiðir fjárfestahóp sem vill kaupa Domino´s pizzukeðjuna á Íslandi, en mögulegt kaupvirði yrði um 2 milljarða króna að því er Fréttablaðið greinir frá.

Viðskiptafélagar hans í Spaðanum eru viðskiptafélagar hans í fyrirtækinu, Jón Pálmason annar eiganda IKEA á Íslandi og Guðni Rafn Eiríksson eigandi Skakkaturns, sem er umboðsaðili Apple á Íslandi. Auk erlendra aðila sem sýnt hafa keðjunni, sem nú er í eigu Dominos á Bretlandi, áhuga hefur framtakssjóður Alfa skilað inn tilboði.

Eins og Viðskiptablaðið sagði fyrst frá í byrjun desember eru meðal keppinautanna um hnossið einnig fjárfestahópur undir forystu Birgis Þór Bieltvedt ásamt Skeljungi en einnig kemur að því tilboði Birgir Örn Birgisson núverandi framkvæmdastjóri Domino´s.

Ef Birgir og hans hópur myndu kaupa yrði það þar með í þriðja sinn sem hann kæmi að rekstri staðarins á Íslandi, en hann seldi bæði stuttu fyrir hrun, keypti aftur 2011 og seldi svo á ný 2016 og 2017 í tvennu lagi. Þá seldi hann á 8,4 milljarða króna en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í desember þá var kaupvirði hans árið 2011 560 milljónir króna, en þá sagðist Birgir nú sjá ný tækifæri í rekstrinum.