Justin Mateen, einn stofnenda Tinder , sem rekur samnefnt smáforrit fyrir þá sem eru í stefnumótahugleiðingum, hefur tekið poka sinn hjá fyrirtækinu. Mateen var yfirmaður markaðsmála hjá Tinder. Ástæðan er sú að Whitney Wolfe, næstráðandi hans,í markaðsdeildinni, kærði hann og forstjórann Sean Rad um kynferðislega áreitni. Þeir munu líka hafa áreitt aðra starfsmenn með svipuðum hætti.

Málalyktir urðu þær að sættir náðust í málinu.

Málið þykir nokkuð vandræðalegt fyrir stofnendur fyrirtækisins enda stutt síðan Barclays-bankinn gaf út bjartsýna spá um gengi fyrirtækisins í ljósi mikillar aukningar notenda og mat fyrirtækið á rúman milljarð dala. Það jafngildir þá í kringum 120 milljörðum íslenskra króna.