Alan Sked, stofnandi breska sjálfstæðisflokksins (e. Ukip), er allt annað en hrifinn af flokknum eins og hann lítur út í dag. Flokkurinn, sem vann stórsigur í Evrópukosningunum í Bretlandi um síðustu helgi með leiðtogann Nigel Farage í fararbroddi, á það sammerkt með öðrum flokkum sem gekk vel á meginlandi Evrópu, að vera svarinn andstæðingur Evrópusambandsins og mælir fyrir hertri löggjöf í innflytjendamálum.

Sked fullyrðir í samtali við breska dagblaðið Guardian að flokkurinn hafi verið allt öðruvísi þegar hann stofnaði forvera Ukip við bláupphaf tíunda áratugar síðustu aldar. Blaðið segir Sked vinna að stofnun nýs framboðs, New Deal, sem eigi að vera mótvægi við breska Verkamannaflokkinn með sama hætti og Ukip var mótvægi gegn breska Íhaldsflokknum. Blaðið segir Sked, sem er prófessor í sögu við London School of Economics, ætla að fara fram gegn Ed Miliband í Doncaster á næsta ári.

Sked segir Ukip hafa upphaflega ekki mælt fyrir hertri löggjöf í innflytjendamálum né Evrópusambandinu, í raun ekki vilja senda þingmann á Evrópuþingið. Nú sé stefnan önnur og segir hann að hægri öfgahópur hafi tekið flokkinn yfir.

„Flokkurinn sem ég stofnaði er orðinn að skrímsli Frankensteins,“ segir Sked í samtali við Guardian.

Eins fram kom í umfjöllun VB.is fyrr í dag um Nigel Farage þá segir kona hans frá því að hann sé nokkuð hömlulaus, bæði drekki og reyki of mikið.