John Schnatter, stofnandi og stærsti hluthafi flatbökukeðjunnar Papa John‘s, sem nefnt er í höfuðið á honum, hefur kært stjórn og framkvæmdastjóra félagsins til að stöðva þann „óafturkræfa skaða“ sem hann segir þau valda því.

Schnatter hefur átt í vaxandi útistöðum við stjórn félagsins eftir að hann sagði af sér stjórnarformennsku vegna umdeilds kynþáttatengds orðbragðs sem hann viðhafði á símafundi, og þetta er ekki í fyrsta sinn í sumar sem hann kærir félagið. Hann á þó enn 30% hlut í félaginu, og sæti í stjórninni.

Schnatter segir stjórnina og framkvæmdastjórann valda félaginu „óafturkræfum skaða með ítrekuðum og yfirstandandi brotum á skyldum og tryggð þeirri sem þeir skuldi félaginu,“.

Félagið svaraði því til að ásakanirnar ættu sér engan grundvöll, og Schnatter „myndi gera hvað sem er til að draga athygli frá þeim skaða sem óviðeigandi orðbragð hans olli,“.