*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 7. maí 2013 18:14

Stofnandinn tekur aftur við stýrinu hjá Gogoyoko

Stjórn Gogoyoko vísar því á bug að fyrirtækið sé að hætta starfsemi. Reynt var að fá viðskiptavini yfir til nýs fyrirtækis.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Haukur Davíð Magnússon, annar stofnenda tónlistarveitunnar Gogoyoko, hefur tekið við á ný sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hann stofnaði fyrirtækið við annan mann árið 2007 en steig frá sem framkvæmdastjóri fyrir þremur árum. Fram kemur í tilkynningu að hann hafi tekið við starfinu á ný í dag eftir að Hreinn Elíasson, fyrrverandi framkvæmdastjóri sem stýrt hefur Gogoyoko um nokkurra mánaða skeið, og sex aðrir starfsmenn hafi hætt óvænt í lok apríl. Pétur Úlfur Einarsson, sem stofnaði fyrirtækið með Hauki á sínum tíma kemur líka til starfa hjá Gogoyoko á ný.

Reynt að tæla viðskiptavini annað

Í tilkynningunni segir ennfremur að stjórn Gogoyoko hafi orðið þess áskynja að haft hafi verið samband við einhverja viðskiptavini félagsins og því ranglega haldið fram að það sé að hætta starfsemi. Að því er virðist í þeim tilgangi að ná viðskiptavinum þess yfir til nýs fyrirtækis. Stjórn félagsins hyggst á næstunni skoða hvort ástæða sé til að grípa til aðgerða vegna þessa.

Meðal stærstu eigenda og fjárfesta í Gogoyoko eru Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (NSA) og Frumtak. Fyrir liggur að þessir aðilar munu áfram gæta hagsmuna sinna sem eigendur félagsins og með þeim hætti sem þeim er skylt gagnvart eigin eigendum, sem eru meðal annars íslenska ríkið og fleiri aðilar.