Stjórn Rarik ohf. hefur samþykkt stofnun sérstaks dótturfélags til að halda utan um útrásarverkefni sín. Rarik orkuþróun ehf. er ætlað að halda utan um starfsemi félagsins erlendis og einnig þróunarverkefni á Íslandi. Rarik hefur lagt félaginu til 100 milljónir króna í hlutafé og hefur heimild til að auka það upp í 300 milljónir króna. Sú eign sem félagið á nú í ýmsum þróunarverkefnum verður lögð inn í hið nýstofnaða félag.

Að sögn Tryggva Þórs Haraldssonar, forstjóra Rarik, er félagið þátttakandi í verkefni í Noregi, Blåfall Energi, sem stefnir að byggingu 40 til 50 lítilla vatnsaflsvirkjanna. Þar á Rarik 10% hlut og sömuleiðis Landsbankinn. Sá eignarhlutur verður lagður inn í Rarik orkuþróun og sömuleiðis eignarhlutur félagsins í Héraðsvötnum og Sunnlenskri orku. „Þetta er ekki fjárfestingarfyrirtæki heldur er þetta fyrirtæki þar sem við hugsum okkur að koma að verkefnum og taka þátt í þróun þeirra og undirbúningi. Um leið hugsum við okkur að fá fjárfesta að verkefnunum. Við erum að reyna að nýta þá þekkingu sem við eigum hér innanlands, bæði innan Rarik og annars staðar til að koma á verkefnum sem við getum síðan fengið fjárfesta að, innlenda sem erlenda. Við munum hins vegar fara út úr verkefnunum þegar ráðist verður í stórar fjárfestingar eða minnka hlut okkar. Við erum ekki að hugsa þetta dótturfélag okkar sem fjárfestingafyrirtæki. Við erum búnir að ákveða að setja takmarkaða fjármuni í þetta og sjá hvernig gengur,“ sagði Tryggvi.

Hann benti á að það væri mikið af verkefnum í pípunum og í raun fengju þeir gríðarlega mikið af fyrirspurnum og óskum um þátttöku í verkefnum. Í næstu viku er gert ráð fyrir að upplýsa um ráðningu framkvæmdastjóra Rarik orkuþróunar. Rarik ohf. er hlutafélag um rekstur Rafmagnsveitna ríkisins. Félagið lauk á árinu kaupum á Orkusölunni ehf. Einnig á það 90% í Sunnlenskri orku, en virði eignarhluta í öðrum félögum er samtals um 1,3 milljarðar króna. Félagið skilaði 191 milljóna króna tapi á árinu 2007. Rekstrartekjur á árinu námu 7,4 milljörðum króna. Í árslok námu heildareignir félagsins 26,4 milljörðum króna, og hlutfall eigin fjár var 55,7%. Í ársbyrjun var hlutfallið 61,6%.