*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 3. mars 2021 18:05

Óbreytt stjórn væri „mjög óeðlileg“

Steinn Logi Björnsson hefur opnað vefsíðu um framboð sitt til stjórnar Icelandair þar sem hann gagnrýnir tilnefningarnefnd félagsins.

Ingvar Haraldsson
Steinn Logi Björnsson.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Steinn Logi Björnsson, hefur stofnað heimasíðu um framboð sitt til stjórnar Icelandair. Á síðunni, SteinnLogi.is, er kallað eftir því að hluthafar Icelandair sendi honum útfyllt umboð sitt fyrir aðalfund félagsins sem fer fram 12. mars. Þannig geti hann kosið í stjórnina fyrir hönd hluthafa sem veita til þess umboð.

Steinn Logi var síðast forstjóri Bláfugls en á árunum 1985-2005 starfaði Steinn Logi hjá Icelandair „og tók þar þátt í að skapa það félag sem Icelandair er í dag og byggja þar upp leiðarkerfi og markaðsstarf félagsins,“ eins og það er orðað á heimasíðunni.

Steinn Logi er ósáttur við að tilnefningarnefnd Icelandair hafi lagt til óbreytta stjórn félagsins þann 12. febrúar. Tilnefninganefndina skipa þau Úlfar Steindórsson stjórnarformaður Icelandair, Helga Árnadóttir starfsmaður Bláa Lónsins og Hjörleifur Pálsson sjálfstætt stafandi ráðgjafi „Ég tel þetta mjög óeðlilegt í ljósi þess að 11.000 nýir hluthafar bættust í hópinn og auk þess tóku 2 stærstu hluthafarnir LIVE og Par Capital með samtals um 25% af atkvæðum í síðustu kosningum ekki þátt í hlutafjárútboðinu,“ segir Steinn Logi á síðunni.

Meðal annara sem lýst hafa áhuga á framboði en sitja ekki í stjórninni eru Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands.

Stjórn Icelandair skipa nú auk Úlfars þau Guðmundur Hafsteinsson, John F. Thomas, Nina Jonsson og Svafa Grönfeldt.