Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson vinnur nú að stofnun nýrra hagsmunasamtaka fyrir litla og meðalstóra atvinnurekendur á Íslandi. Fá þau nafnið Litlu og meðalstóru samtök atvinnulífsins (LMSA).

„Mér finnst ég ekki hafa nægilega mikið að gera. En þetta er mikilvægt málefni sem verður að halda á lofti,“ skrifar Sigmar í færslu á Facebook.

Búið er að stofna Facebook síðu fyrir samtökin sem heitir „LMSA – stóru samtök atvinnulífsins“. Í fyrstu færslu síðunnar kemur þó fram að ekkisé búið að formlega stofna samtökin. Skilgreining á litlum og meðalstórum fyrirtækjum séu fyrirtæki með 250 starfsmenn eða færri. Markmið samtakanna verða einföld og skýr, annars vegar kjaramál og -samningar og hins vegar lagalegt og skattalegt umhverfi fyrirtækja að þessari stærðargráðu.

Bent er á að 71% allra launamanna starfa hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, samanborið við 67% innan ríkja Evrópusambandsins. Fyrir þessar sakir er Sigmar á að hækkun lægstu launa landsins séu í hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

„Hagur lítilla og millistórra fyrirtækja er sá að lægstu laun hækki og kaupmáttur aukist. Þannig skapast tækifæri fyrir þessi fyrirtæki til að eiga í viðskiptum við þá einstaklinga sem annars væru ekki í aðstöðu til þess,“ segir Sigmar í viðtali við Stundina um samtökin. „Að einhverju leyti erum við nær verkalýðsfélögunum þegar kemur að sýn á lágmarkslaunum og kaupmætti þeirra stétta.“

Hann telur að stóru fyrirtækin ráði of miklu innan Samtaka atvinnulífsins (SA) þar sem atkvæðarétturinn þar fylgi krónufjölda sem rennur til samtakanna. Hagsmunir stóru fyrirtækjanna eru að mati Sigmars gagnstæð hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem þau stóru stunda mikinn útflutning á vöru og þjónustu en minni fyrirtæki einbeiti sér aðallega að innanlandsmarkaði.

„SA eru fín samtök fyrir þá hagsmuni sem þau eru að gæta, en þeir fara ekki saman við hagsmuni lítilla og millistórra fyrirtækja,“ segir Sigmar við Stundina.

Hann talar einnig fyrir því að leyfisgjöld hjá hinu opinbera taki mið af veltu fyrirtækja til að koma til móts við minni atvinnurekendur. Einnig vill hann sjá meiri fjárfestingu frá lífeyrissjóðunum í minni fyrirtæki en að hans sögn kemur 78% iðgjalda þeirra frá starfsmönnum minni fyrirtækja.